Jørn Mikkelsen hefur verið ráðinn ritstjóri danska dagblaðsins Jyllands-Posten. Mikkelsen, sem er 51 árs, tekur við starfinu af Carsten Juste, sem tilkynnti fyrir skömmu að hann hefði ákveðið að láta af störfum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Jørn Mikkelsen er trygging fyrir gæðafjölmiðlun og yfirsýn í alþjóðamálum. Hann hefur einstaka þekkingu á dönskum og alþjóðlegum málefnum. Jørn Mikkelsen er krefjandi yfirmaður fyrir hönd lesenda,” segir Jørgen Ejbøl, stjórnarformaður JP/Politikens Hus um ráðninguna.
Mikkelsen hefur tengst blaðinu frá árinu 1994 og hefur hann m.a. verið fréttaritari þess í Þýskalandi, fréttastjóri erlendrar fréttadeildar blaðsins, yfirfréttastjóri þess og aðstoðarritstjóri.