Dalai Lama áhrifamesti einstaklingurinn að mati Time

Dalai Lama.
Dalai Lama. Reuters

Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, er áhrifamesti einstaklingur í heimi að mati bandaríska fréttatímaritsins Time, sem árlega tekur saman lista yfir áhrifamestu einstaklinganna á ýmsum sviðum mannlífsins. Vladímír Pútín, fráfarandi forseti Rússlands, er í 2. sæti. 

Þau Barack Obama, sem sækist eftir því að verða forsetaefni bandaríska Demókrataflokksins, Hillary Clinton, sem einnig sækist eftir þeirri útnefningu, og John McCain, sem er forsetaefni Repúblikanaflokksins, eru í sætum  3. til 5. Hu Jintau, forseti Kína, er í 6. sæti og George W. Bush, Bandaríkjaforseti, í 7. sæti sæti en hann komst ekki á blað á síðasta ári.

Á listanum í ár eru m.a. kvikmyndastjörnurnar Brad Pitt og Angelina Jolie, sjónvarpskonan Oprah Winfrey, hlauparinn Oscar Pistorius sem notar gervifætur frá Össuri, leikkonan Mia Farrow og tennisleikarinn Andre Agassi. Þar er einnig unglingastjarnan Miley Cyrus, sem leikur í sjónvarpsþáttunum um Hannah Montana en hún er 15 ára og yngsti einstaklingurinn, sem kemst á lista Time frá upphafi.

Enginn Íslendingur er á lista Time í ár en á síðasta ári var Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, í 81. sæti.  

Listi Time

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert