Tom Casey, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, segir ekki hafi verið ákveðið að loka sendiráði og ræðismannsskrifstofu Hvíta-Rússlands í Bandaríkjunum þótt bandarísk yfirvöld hafi miklar áhyggjur af samskiptum ríkjanna.
AP-fréttastofna hafði eftir bandarískum embættismönnum fyrr í dag að bandaríska utanríkisráðuneytið hefði gefið fyrirmæli um að sendiráði Hvíta-Rússlands í Washington og ræðismannsskrifstofu landsins í New York verði lokað. Var ráðuneytið sagt hafa veitt Hvít-Rússum frest til 16 maí til að kalla sex stjórnarerindreka sína í landinu heim.
Yfirvöld í Hvíta-Rússlandi vísuðu bandarískum stjórnarerindrekum úr landinu í gær. Var þeim gefinn 72 klukkustunda frestur til að yfirgefa landið.Samskipti Bandaríkjanna og Hvíta-Rússlands, hafa versnað mikið á undanförnum mánuðum en bandarísk yfirvöld hafa harðlega gagnrýnt Alexander Lukashenko, forseta landsins, og krafist þess að yfirvöld í landinu sleppi pólitískum föngum.