Kona, sem fundin var sek um að reka vændishring í Washingtonborg í Bandaríkjunum, fannst látin á Flórída í dag og er talið að um sé að ræða sjálfsmorð. Lík konunnar fannst í skúr nálægt heimili móður hennar í Tarpon Springs.
Konan, sem hét Deborah Jeane Palfrey og var rúmlega, var fundin sek fyrir hálfum mánuði um að reka vændishring sem þjónaði m.a. þingmönnum og háttsettum embættismönnum í Washington. Málið olli talsverðu uppnámi í borginni á síðasta ári og neyddist m.a. einn háttsettur embættismaður í bandaríska utanríkisráðuneytinu að segja af sér.
Palfrey, eða frú D.C. eins og hún var nefnd, hélt því fram að hún ræki löglega erótíska þjónustu og að hún sætti ofsóknum skattayfirvalda. Hótaði hún m.a. að láta sjónvarpsstöð hafa lista með nöfnum 15 þúsund viðskiptavina vændisþjónustunnar
Palfrey átti brotaferil að baki. Hún sat m.a. 18 mánuði í fangelsi í Kaliforníu fyrir að reka vændishring 12 kvenna og hugðist því næst flytja inn listmuni frá Indlandi og Vesturlöndum til Bretlands en tók upp fyrri háttu.