Yfirvöld í Íran hafa sent Sameinuðu þjóðanna kvörtun vegna ummæla Hillary Rodham Clinton, sem berst fyrir því að verða forsetaefni bandarískra demókrata í kosningunum í nóvember. Clinton ræddi í síðustu viku aðstæður sem gætu leitt til þess að Bandaríkin gerði árás á Íran. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Í kvörtuninni, sem Mehdi Danesh-Yazdi sendiherra Írana hjá Sameinuðu þjóðunum, sendi Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, segir að ummæli hennar hafi verið ögrandi og ábyrgðarlaus. Þá segir að Clinton hafi án nokkurs tilefnis og á fölskum forsendum hótað hernaðaraðgerðum gegn Íran og að slíkar yfirlýsingar stangist á við alþjóðalög.
Clinton sagði m.a. að Bandaríkin muni leggja Íran í rúst geri Íranar árás á Ísrael. „Það er hræðilegt að segja þetta en ráðamenn í Íran verða að gera sér grein fyrir þessu því það mun hugsanlega fæla þá frá því að gera eitthvað sem gæti væri ábyrgðarlaust, heimskulegt og sorglegt,” sagði hún.