Peres líkir Ahmadinejad við Hitler

Shimon Peres, forseti Ísraels, er hann flutti ræðu sína í …
Shimon Peres, forseti Ísraels, er hann flutti ræðu sína í helfararsafninu í Jerúsalem í gærkvöldi. AP

Simon Peres, forseti Ísrael líkti í gærkvöldi þeirri ógn sem Ísraelum stafar af meintri kjarnorkuvopnaþróun Írana við þá ógn sem gyðingar stóðu frammi fyrir á fjórða áratug síðustu aldar. Ísraelar minnast í dag helfarar gyðinga á  tímum síðari heimsstyrjaldarinnar.

 

„Ég fæ hroll við tilhugsunina um að Hitler hefði getað komist yfir kjarnorkuvopn,” sagði Peres. „Leiðtogi sem leggur á ráðin um fjöldamorð og hefur yfir gereyðingarvopnum að ráða. Hvað hefði staðið eftir hér í heimi?”

Þá sagði hann söguna sýna að alþjóðasamfélagið hafi brugðist of seint við gagnvart Hitler og samherjum hans og að slíkt mætti ekki endurtaka sig.  „Við verðum að axla ábyrgð okkar. Heimurinn verður að axla ábyrgð sína án tafar.”

Aðstoðarmenn forsetans hafa staðfest að með orðum sínum hafi hann verið að líkja Mahmoud Ahmadinejad Íransforseta við Adolf Hitler og hvetja til aðgerða gegn Írönum sem Ísraelar staðhæfa að stefni að því að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

  

Fórnarlamba helfararinnar er m.a minnst með tveggja mínútna þögn um allt Ísraelsríki í dag. Þá eru nöfn fórnarlamba nasista lesin upp á opinberum stöðum m.a. í ísraelska þinghúsinu Knesset.

Talið er að um sex milljónir gyðinga hafi látið lífið í helförinni en flestir þeirra voru teknir af lífi af nasistum og samherjum þeirra.   Tilviljun ræður því að minningardagurinn fellur á 1. maí, sem nýnasistar hafa gjarnan nýtt til aðgerða, en minningardagurinn er reiknaður út samkvæmt tímatali gyðinga sem tekur mið af tunglárinu.    
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert