Embættismenn í yfirkjörstjórn Simbabve sögðu á fundi með fulltrúum stjórnar og stjórnarandstöðu í landinu í dag, að Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, hefði fengið 47,8% atkvæða í forsetakosningum 29. mars sl. Robert Mugabe, forseti, hefði fengið 43,2% og Simba Makoni, fyrrum fjármálaráðherra, 8%. Langton Towungana fékk afganginn af atkvæðunum.
Fulltrúar stjórnarandstöðunnar á fundinum með kjörstjórninni mótmæltu þesum tölum og ítrekuðu þá skoðun sína, að Tsvangirai hefði fengið yfir helming greiddra atkvæða og væri því réttkjörinn forseti.