5 ára fangelsi fyrir fjárkúgun

Buckinghamhöll.
Buckinghamhöll.

Kviðdómur í Old Baily í Lundúnum fann í dag tvo karlmenn seka um tilraun til að reyna að kúga fé út úr karlmanni í bresku konungsfjölskyldunni. Voru mennirnir dæmdir í 5 ára fangelsi.

Mennirnir heita Sean McGuigan, sem er 41 árs gamall Íri, og Ian Strachan, 31 árs gamall Englendingur, öðru nafni Paul Adalsteinsson en hann er af íslenskum ættum.

Sakborningarnir neituðu báðir sök. Þeir voru handteknir í september í fyrra á hóteli í Lundúnum og ákærðir í kjölfarið fyrir að hafa krafist þess að fá greidd 50 þúsund pund en ella myndu þeir birta myndband þar sem systrursonur Elísabetar Englandsdrottningar var borinn ýmsum sökum, þar á meðal að hafa neytt fíkniefna og átt kynmök við einkaþjón sinn.

Í réttarhöldunum kom fram, að mennirnir höfðu áður reynt að selja breskum fjölmiðum segulbandsupptökur og myndskeið sem tengdust málinu.

Dómar fyrir fjárkúgun eru sjaldgæfir í Bretlandi. Breska ríkisútvarpið hefur eftir Mark Carroll hjá breska ríkissaksóknaraembættinu, að þótt sakborningarnir hafi haldið því fram að þeir hefðu verið að vernda hagsmuni fórnarlambsins hafi kviðdómurinn hafnað skýringum þeirra og tekið undir þær fullyrðingar saksóknara að mennirnir hefðu aðeins haft áhuga á peningum. 

Afi Strachans flutti frá Íslandi til Englands á fyrri hluta síðustu aldar. Foreldrar Ians skildu er hann var níu ára og þá tók hann upp ættarnafn enskrar móður sinnar. Hefur hann fengist við ýmislegt um dagana að eigin sögn, meðal annars fasteignasölu, en fyrir nokkrum árum fluttist hann til Lundúna ásamt móður sinni. Fór hann þá að stunda félagsskap ríka fólksins og er sagður hafa þóst vel efnum búinn og  erft mikið fé eftir íslenska ömmu sína.
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert