Allmörg bandarísk flugfélög eru farin að hægja á sér - bókstaflega - til að draga úr eldsneytiskostnaði.
Southwest Airlines brá á þetta ráð fyrir tveimur mánuðum, og telur félagið að sparnaður á þessu ári nemi um 42 milljónum dollara í eldsneytiskostnað.
Fyrr í vikunni flaug vél Northwestern á leið frá París til Minneapolis hægar en venjulega, og dró það úr eldsneytisnotkun um 162 gallon, og kostnaði um 535 dollara, en vélin var aðeins átta mínútum lengur á leiðinni en ella, eða alls átta klukkustundir og 58 mínútur.
Líklegast er að farþegar taki ekki eftir því að flugferðir lengist sem þessu nemur, og þeir sem AP ræddi við um málið sögðu að sér væri reyndar slétt sama.
Ekki hafa þó öll flugfélög í Bandaríkjunum brugðið á þetta sparnaðarráð, og sagði talsmaður þess stærsta, American Airlines, að meira væri um vert að halda gerðri áætlun.
Ennfremur hefur verið bent á, að lengri flugtími geti leitt til aukins kostnaðar að öðru leyti, eins og til dæmis launakostnaðar vegna lengri vinnutíma.
Því eru og takmörk sett hversu mikið er hægt að spara eldsneyti með því að fljúga hægar, því að þegar flugvélar fara niður fyrir tiltekinn hraða eykst eldsneytiseyðsla þeirra fremur en minnkar.