Lögregla í Austurríki hyggst yfirheyra Rosemarie Fritzl, eiginkonu Josef Fritz sem hélt dóttur þeirra fanginni í kjallara í 24 ár, til að sannreyna staðhæfingar hennar um að hún hafi ekki haft hugmynd um að dóttir hennar væri í kynlífsánauð föður síns í kjallara hússins. Þetta kemur fram á fréttavef Sky. Þá vinna sérfræðingar að því að safna gögnum í kjallaranum m.a. til að ganga úr skugga um hverjir gengu þar um.
Rosemarie Fritzl, sem er 67 ára, segist ekki hafa haft hugmynd um að dóttir hennar og þrjú barnabörn, væru fangar eiginmanns hennar í kjallara heimilis þeirra. Fritzl hjónin ólu upp þrjú börn dótturinnar, sem sögð var hafa gengið í sértrúarsöfnuð og skilið börnin eftir við heimili þeirra.