Sá síðasti úr hópnum er reyndi að myrða Hitler

Philipp von Boeslager með konu sinni, Rosy, í Berlín 2004.
Philipp von Boeslager með konu sinni, Rosy, í Berlín 2004. AP

Philipp von Boeselager, síðasti eftirlifandi meðlimur hópsins sem reyndi að ráða Adolf Hitler af dögum 1944, er látinn, níræður að aldri, að því er fjölskylda hans greindi frá í dag.

Von Boeselager sá um að útvega sprengiefnið sem sett var í skjalatösku sem aftur var komið fyrir undir borði í bækistöð Hitlers í Austur-Prússlandi, en taskan var færð á bak við borðfót og því slapp Hitler með smáskeinur er hún sprakk.

Flestir samsærismannanna voru teknir af lífi, en ekki komst upp um aðild von Boeselagers að tilræðinu. Meðal þeirra sem Hitler lét myrða var Claus Schenk Graf von Stauffenberg, sem kom skjalatöskunni fyrir og tilræðið hefur verið kennt við.

Von Boesenlager snérist gegn nasistastjórninni í júní 1942 eftir að hann frétti að fimm sígaunar hefðu verið skotnir fyrir það eitt að vera sígaunar.

Að stríðinu loknu fréttist af aðild von Boesenlagers að tilræðinu við Hitler, og hlaut hann æðstu orðu bæði Þýskalands og Frakklands.

Fyrir um hálfum mánuði veitti hann síðast fjölmiðlaviðtal, sem birt verður á næsta ári á sjónvarpsstöðinni History Channel í tengslum við frumsýningu bandarísku kvikmyndarinnar Valkyrjan, sem fjallar um tilræðið við Hitler.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert