Sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna í matvælamálum sagði í dag að Mannréttindaráð SÞ yrði að koma saman hið fyrsta til að vekja athygli á matvælakreppunni í heiminum, sem væri neyðarástand í mannréttindamálum. Að minnsta kosti eitt hundrað milljónir manna hefðu orðið fyrir barðinu á matvælakreppunni í heiminum.
Olivier De Schutter er nýskipaður, óháður fulltrúi ráðsins í matvælaréttindamálum. Hann kvaðst vona að ráðið gæti komið saman til sérstaks fundar síðar í mánuðinum.
Í viðtali við franska blaðið Le Monde sem birt er í dag segir De Schutter að matvælakreppuna nú megi rekja til þess, að helstu valdahafar í heiminum hefðu fylgt rangri stefnu í tvo áratugi.
„Við gjöldum nú fyrir mistök undanfarinna 20 ára. Ekkert var gert til að koma í veg fyrir spákaupmennsku með hráefni, þótt fyrirsjáanlegt hafi verið að fjárfestar myndu snúa sér að þessum mörkuðum þegar draga færi saman á verðbréfamörkuðunum.“
De Schutter sagði ennfremur að Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefðu „alvarlega vanmetið þörfina fyrir fjárfestingar í landbúnaði“, og sakaði gjaldeyrissjóðinn um að hafa neytt skuldug þróunarríki til að verja fé til kaupa á innfluttri uppskeru, í stað þess að verða sjálfum sér nóg um uppskeru.
De Schutter gagnrýndi ennfremur aukna áherslu á notkun korns, sojabauna og sykurs til framleiðslu á eldsneyti fyrir bíla til að draga úr þörf ríkra landa fyrir jarðefnaeldsneyti.
Þá sagði hann og, að það væri „skammarlegt“ hvernig rík lönd niðurgreiði landbúnað, og nauðsynlegt væri að hætta slíkri niðurgreiðslu í áföngum.
Einnig gagnrýndi De Schutter risafyrirtæki í landbúnaði, eins og bandarísku fyrirtækin Monsanto og Dow Chemicals, sem hafi einkaleyfi á mörgum mest notuðu tegundum útsæðis, áburðar og skordýraeiturs, með þeim afleiðingum að smærri aðilar hafi ekki efni á þeim.