Verkamannaflokkurinn tapaði

Atkvæði greidd á hárgreiðslustofu í Hull í gær.
Atkvæði greidd á hárgreiðslustofu í Hull í gær. Reuters

Verkamannaflokkurinn beið afhroð í sveitastjórnarkosningum í Englandi og Wales í gær og hefur flokkurinn misst 140 sæti nú þegar. Eru þetta verstu kosningaúrslit flokksins í fjóra áratugi og mikið áfall fyrir Gordon Brown, sem varð leiðtogi flokksins og forsætisráðherra á síðasta ári.  

Kosið var í 159 bæjum og borgum um rúmlega 4000 fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum. 

Kosningaspá BBC gefur til kynna að Verkamannaflokkurinn sé nú þriðji stærsti flokkurinn með einungis 24% fylgi. Frjálslyndir demókratar koma næstir með 25% fylgi og fékk Íhaldsflokkurinn 44% fylgi. Síðastnefndi flokkurinn vann mjög á  víða um land, m.a. í Bury, Southampton og Harlow. Sky fréttastofan segir, að ef þessi úrslit væru yfirfærð á þingkosningar myndi flokkurinn fá yfir 150 sæta meirihluta í neðri deild breska þingsins.

Talsmaður hjá Verkamannaflokknum segir samt að ekki sé um hættuástand að ræða hjá Gordon Brown forsætisráðherra fyrir þingkosningar, sem fara fram að óbreyttu eftir tvö ár.  Áður en yfir lýkur lítur út fyrir að Verkamannaflokkurinn tapi 200 sætum.

Ekki er byrjað að telja í Lundúnum, þar sem kosinn er borgarstjóri og 25 fulltrúar á borgarþing. Er ekki að vænta úrslita þaðan fyrr en undir kvöld, að því er fram kemur á fréttavef BBC. Ekki hefur heldur verið talið í Wales.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert