Eldfjall, sem talið var kulnað, hefur vaknað til lífsins í Chile en síðast gaus í fjallinu fyrir 10 þúsund árum. Eldfjallið heitir Chaiten og er í suðurhluta landsins. Hafa um 1500 íbúar þorpa í nágrenni fjallsins verið fluttir brott. Þá hafa stjórnvöld dreift um 10 þúsund gasgrímum til annarra íbúa á svæðinu af ótta við eitraðar gastegundir í gosmekkinum.
Vindur hefur borið ösku yfir Andesfjöllin til Argentínu. Hefur sérstöku viðbúnaðarástandi verið lýst yfir á hraðbrautum í löndunum tveimur vegna þess að askan hefur áhrif á skyggni.