Hillary Clinton vísaði til Íslands á kosningafundi í Hendersonville í Norður-Karólínu en forkosningar fara fram á vegum Demókrataflokksins í ríkinu og Indiana á þriðjudag.
Í frásögn á fréttavef blaðsins Times-News af kosningafundinum kemur fram, að Clinton sagði, að nýting endurnýjanlegrar orku væri ein þeirra leiða, sem færar væru til að endurnýja bandarískt efnahagslíf. Sagði hún að Bandaríkin mættu ekki vera jafn háð erlendri olíu og raun bæri vitni.
Sagði Clinton, að Ísland og Brasilía hefðu nýtt endurnýjanlegar orkulindir til að draga úr olíuþörf sinni.
„Við getum skapað fimm milljón ný störf og það eru störf, sem ekki er hægt að flytja til útlanda," sagði Clinton.
Hún sagði að Bandaríkin gætu nýtt sólarorku, vindorku, lífrænt eldsneyti og aðra endurnýjanlega orku.
Clinton gagnrýndi George W. Bush, Bandaríkjaforseta, fyrir stefnu hans í orkumálum og sagði að olían hefði kostað 20 dali tunnan þegar hann tók við embætti. Nú væri verðið nálægt 120 dölum. Að sögn blaðsins sagði Clinton að Bush hefði ekki komið í veg fyrir að Sádi-Arabía og OPEC hækkuðu orkuverð.
„Verði ég forseti ykkar munuð þið ekki sjá mig halda í höndina á Sádi-Aröbum. Þið munið sá, að ég geri þá ábyrga," sagði hún.