Mágkona Josefs Fritzls, Austurríkismannsins sem hélt dóttur sinni fanginni í kjallara í 24 ár og eignaðist með henni 7 börn, segir að eiginkona Josefs hafi aldrei talið að maður sinn ætti þátt í því þegar dóttir þeirra hvarf.
Josef hafði þó áður afplánað 18 mánaða fangelsisdóm fyrir nauðgun á sjöunda áratug síðustu aldar.
Mágkonan, sem vill ekki koma fram undir fullu nafni en kallar sig Christine R., segir í sjónvarpsviðtali við AP fréttastofuna að Elisabeth frænka hennar hafi hlaupist að heiman þegar hún var 17 ára. Það kunni að skýra það hvers vegna faðir hennar ákvað um hálfu ári síðar að loka hana inni í hljóðeinangruðum og gluggalausum kjallara undir heimili fjölskyldunnar.
Christine R. segir, að Josef hafi verið harðstjóri, sem hélt allri fjölskyldu sinni í heljargreipum. Þetta hafi gert honum auðvelt fyrir, að segja að Elisabeth hefði hlaupist að heiman og gengið til liðs við sértrúarsöfnuð; enginn hefði efast um þá sögu.
„Þegar hann sagði, að hlutirnir væru svartir þá voru þeir svartir, jafnvel þótt þeir væru skjannahvítir," segir Christine. „Hann þoldi engar mótbárur. Ég var sjálf hrædd við hann í fjölskylduboðum og þorði ekki að segja neitt sem gæti hugsanlega komið honum úr jafnvægi og því er hægt að ímynda sér hvernig konunni, sem bjó með honum í öll þessi ár hefur liðið."
Christine sagðist viss um, að ef Rosemarie systir hennar hefði reynt að andæfa manni sínum hefði hann hugsanlega brugðist ókvæða við og hugsanlega misþyrmt henni.
„En hann var harðstjóri. Það sem hann ákvað stóð og aðrir þurftu að þegja og samþykkja."