Segir Fritzl ósakhæfan

Josef Fritzl í fríi í Thaílandi.
Josef Fritzl í fríi í Thaílandi. AP

Josef Fritzl, Austurríkismaðurinn sem játað hefur að hafa fangelsað dóttur sína í 24 ár og eignast með henni börn, kann að reyna að sleppa við fangelsi með því að bera við ósakhæfni sökum geðbilunar, að því er fram kemur í viðtali við verjanda hans í þýska blaðinu Bild am Sonntag í dag.

„Það er mín skoðun að Josef Fritzl sé andlega vanheill og því ekki ábyrgur gerða sinna,“ segir verjandinn, Rudolf Mayer, í viðtalinu. „Ég tel að skjólstæðingur minn eigi ekki að fara í fangelsi heldur vistast á stofnun fyrir geðsjúka afbrotamenn.“

Mayer hefur hingað til ekki sagt neitt um það hvernig Fritzl muni bregðast við ákæru, en lýst því yfir að hann telji óhugsandi að skjólstæðingur sinn geti fengið sanngjarna málsmeðferð í ljósi þeirrar gríðarlegu athygli sem mál hans hafi vakið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert