Engin viðvörun gefin

Lára Bush, forsetafrú í Bandaríkjunum, sakaði í dag herstjórnina í Búrma um að hafa ekki gefið út neina viðvörun til almennings um að fellibylur væri í aðsigi. Hvatti hún Búrmastjórn til að þiggja hjálp frá Bandaríkjunum vegna afleiðinga hamfaranna.

Talið er að um tíu þúsund manns, eða jafnvel um fimmtán þúsund, hafi farist í fellibylnum sem gekk yfir á föstudag og laugardag.

Lára Bush sagði að þótt búrmískir ríkisfjölmiðlar hafi vitað af yfirvofandi hættu vegna fellibylsins hafi þeir ekki gefið út neinar viðvaranir til almennings á því svæði sem bylurinn stefndi á.

Margt fólk í landinu hafi fyrst frétt að óveðrið nálgaðist þegar erlendir fjölmiðlar á borð við Radio Free Asia og Voice of America hafi gefið út viðvaranir.

Lára Bush hefur gegnt lykilhlutverki í að móta stefnu Bandaríkjanna gagnvart Búrma. Hún sagði bandarísk stjórnvöld reiðubúin til að auka aðstoð við landið langt umfram þá 250.000 dollara sem bandaríska sendiráðið í Rangoon hafi lagt fram.

Herstjórnin í Búrma yrði þó fyrst að leyfa bandarískum viðbragðsaðilum að koma inn í landið til að meta tjónið af völdum veðursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert