Dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að bólusetja alla nautgripi, sauðfé og geitur á búum á Suður-Jótlandi, Fjóni og Sjálandi, alls 650.000 gripi vegna blátungu. Kostnaður vegna þessa er um 30 milljónir danskar krónur sem bændur þurfa að greiða, samkvæmt frétt á vef Landsambands kúabænda.
Möguleiki er á að þeir fái þann skaða bættan að einum þriðja frá Evrópusambandinu, þar sem þetta er hluti af aðgerð á vegum sambandsins til að útrýma blátungu sjúkdómnum. Ætlunin er að bólusetningin fari af stað í júlímánuði og að hún taki um tvo og hálfan mánuð.
Blátunga (e. bluetongue) er vírus sem berst með litlum flugum sem hingað til hafa einungis fundist við strendur Miðjarðarhafsins en talið er að þær sé nú að finna víðar sökum hlýnunar andrúmsloftsins.
Sjúkdómsins hefur ekki orðið vart í Danmörku, fyrir utan einn grip
sem drapst á Lálandi í októbermánuði. Hann herjar hins vegar í Þýskalandi,
Hollandi og Belgíu og hefur haft víðtæk og neikvæð áhrif á framleiðsluna þar.