Fölsuð skjöl um síðari heimsstyrjöld í breska þjóðskjalasafninu

Heinrich Himmler.
Heinrich Himmler. AP

Átta breskir sagnfræðingar hafa birt opið bréf í blaðinu Financial Times þar sem krafist er skýringa á því að 29 fölsuðum skjölum um síðari heimsstyrjöldina var árið 2000 komið fyrir í breska ríkisskjalasafninu. Skjölin gera m.a. til kynna, að Winston Churchill, þáverandi forsætisráðherra Breta, hafi fyrirskipað að Heinrich Himmler, yfirmaður SS sveita þýsku nasistanna, yrði myrtur.

Andrew Roberts, einn sagnfræðinganna átta, segir að lögregla verði að grípa til aðgerða gegn þeim sem komu skjölunum fyrir til að hindra að slíkt endurtaki sig.

Hann segir, að með fölsuðu skjölunum sé vegið að orðstír Churchills vegna þess að þar er ríkisstjórn hans sökuð um að hafa átt leynileg samskipti við Himmler þegar stríðið var í algleymingi og síðan fyrirskipað að hann yrði myrtur undir lok stríðsins til að breiða yfir samskiptin.

Stjórnendur þjóðskjalasafnsins komust á snoðir um fölsuðu skjölin árið 2005 eftir að breski blaðamaðurinn Ben Fenton benti þeim á það. Málið var þá kært til bresku lögreglunnar Scotland Yard. Eftir rannsókn fékk ríkissaksóknaraembætti Bretlands málið í hendur en ákvað að ákæra ekki þann, sem grunur beindist helst að en hann er sagður vera heilsulaus. Nafn hans hefur ekki verið birt.

Fenton segir í grein í  Financial Times um helgina, að höfundurinn Martin Allen hafi í bók sinni Himmler's Secret War, sem kom út árið 2005, m.a. byggt þá kenningu á fölsuðu skjölunum, að Himmler hafi ekki framið sjálfsmorð með blásýru eftir að breskir hermenn tóku hann til fanga árið 1945 heldur hafi breska leyniþjónustan tekið hann af lífi.

Winston Churchill.
Winston Churchill.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert