Hjúkrunarfræðingar sem starfs hjá ellefu sveitafélögum í Danmörku og fulltrúar vinnuveitenda þeirra munu eiga samningafund í dag. Hjúkrunarfræðingarnir eru eini hópurinn sem enn er í verkfalli í Danmörku eftir að önnur fagfélög féllust á samning stéttarfélagsins FOA um 12,8% launahækkun.
„Ég lít svo á að boð um viðræður sé merki þess að sveitafélögin eigi meiri peninga. Ég sagði því eðlilega já takk þegar mér var boðið,” segir Connie Kruckow, formaður fagfélags hjúkrunarfræðinganna.
Bent Hansen, talsmaður samninganefndar sveitafélaganna, útilokar ekki að hjúkrunarfræðingunum verði boðnar frekari launahækkanir og segist bjartsýnn á að samningar náist fyrir vikulok. Hjúkrunarfræðingarnir hafa fram til þessa neitað að falla frá kröfu sinni um 15% launahækkun á næstu þremur árum.