Karlmaður, sem skaut á löreglumenn úr húsi í King's Road í Chelsea í Lundúnum, lést eftir að lögregla réðist til inngöngu í húsið og beitti lömunarsprengjum og öðrum vopnum. Áður hafði lögreglan setið um húsið í nærri fimm klukkustundir.
Lögreglan var kölluð til eftir að tilkynning barst um að skotið hefði verið af byssu inni í barnaherbergi í íbúðinni. Þegar lögreglumenn komu að húsinu um klukka 17 skaut maðurinn á þá. Hann skaut aftur á lögregluna á tíunda tímanum og lögreglan svaraði skothríðinni.
Ekki er vitað hvað manninum gekk til. Eigandi hússins sagði við Sky News, að maðurinn hafi verið á þrítugsaldri og verið með haglabyssu. Hann hafi ruðst inn í húsið og skotið þar úr byssunni.