Utanríkisráðherra Bretlands David Miliband telur að senda eigi alþjóðlega eftirlitsmenn til Simbabwe til að tryggja að önnur umferð í forsetakosningunum fari löglega fram.
„Til að tryggja það að önnur umferð forsetakosninga sé lögleg og sanngjörn þarf að binda endi á ofbeldið sem ríkt hefur umsvifalaust og láta alþjóðlega eftirlitsmenn fylgjast grannt með gangi mála,“ sagði hann.
Að minnsta kosti tveir hafa verið drepnir og 500 særst í landinu síðan forsetakosningarnar fóru fram fyrir fimm vikum síðan. Miliband segir stjórn Roberts Mugabe forseta grípa til ofbeldis til að halda völdum.
Miliband hefur litla trú á lögmæti þeirra niðurstaðna sem sýna að leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins MDC, Morgan Tsvangirai, hafi hlotið 47,9% atkvæða en Robert Mugabe 43,2 en þörf er á hreinum meirihluta til að vera kjörinn sigurvegari. Tsvangirai heldur því enn fram að hann hafi hlotið meirihluta atkvæða í forsetakosningunum 29. mars sl.