Miliband vill alþjóðlega eftirlitsmenn til Simbabwe

David Miliband, utanríkisráðherra Breta.
David Miliband, utanríkisráðherra Breta. Reuters

Utanríkisráðherra Bretlands David Miliband telur að senda eigi alþjóðlega eftirlitsmenn til Simbabwe til að tryggja að önnur umferð í forsetakosningunum fari löglega fram.  

„Til að tryggja það að önnur umferð forsetakosninga sé lögleg og sanngjörn þarf að binda endi á ofbeldið sem ríkt hefur umsvifalaust og láta alþjóðlega eftirlitsmenn fylgjast grannt með gangi mála,“ sagði hann.

Að minnsta kosti tveir hafa verið drepnir og 500 særst í landinu síðan forsetakosningarnar fóru fram fyrir fimm vikum síðan. Miliband segir stjórn Roberts Mugabe forseta grípa til ofbeldis til að halda völdum.  

Miliband hefur litla trú á lögmæti þeirra niðurstaðna sem sýna að leiðtogi stjórnarandstöðuflokksins MDC, Morgan Tsvangirai, hafi hlotið 47,9% atkvæða en Robert Mugabe 43,2 en þörf er á hreinum meirihluta til að vera kjörinn sigurvegari. Tsvangirai heldur því enn fram að hann hafi hlotið meirihluta atkvæða í forsetakosningunum 29. mars sl.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert