Tuttugu og átta ára konu var nauðgað í viðurvist fjölda vegfarenda á götu í Hróarskeldu í Danmörku í morgun. Samkvæmt upplýsingum lögreglu átti atburðurinn sér stað á Jernbanegade klukkan 7:10. Vegfarendur hringdu á lögreglu er þeir heyrðu konuna segja manninum að láta sig í friði. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Maðurinn hljóp á brott er vegfarendur gerðu hróp að honum en maður, sem talinn er hafa verið að verki, var handtekinn í nágrenninu skömmu síðar.
Lögregla segir að fórnarlambið hafi verið undir áhrifum fíkniefna og því ófært um að verja sig. Mjög sjaldgæft sé hins vegar að slíkt eigi sér stað á almannafæri að degi til.