Obama spáð sigri í Norður-Karólínu

Um leið og kjörstöðum var lokað í forkosningum bandaríska Demókrataflokksins í Norður-Karólínu klukkan 23:30 að íslenskum tíma í kvöld lýsti sjónvarpsstöðin Fox því yfir að Barack Obama hefði farið með sigur af hólmi.

Byggði sjónvarpsstöðin þetta á útgönguspám sem m.a. sýndu afar sterka stöðu Obama meðal blökkumanna í ríkinu en 91% þeirra, sem tóku þátt í prófkjörinu, kusu Obama en 6% Hillary Clinton. Þá kusu 71% ungra kjósenda í ríkinu Obama.

Þegar búið var að telja 11% atkvæða hafði Obama fengið 63% en Clinton 35%. Þessi niðurstaða þykir mikill sigur fyrir Obama, sem hefur átt nokkuð undir högg að sækja að undanförnu af ýmsum ástæðum. 

Einnig fóru fram forkosningar Demókrataflokksins í Indiana í dag og þar var útlit fyrir sigur Clinton. Þegar búið var að telja 50% atkvæða í Indiana hafði Clinton fengið 55% en Obama 44%. 

Samtals er kosið um 187 kjörmenn í ríkjunum tveimur en þeir skiptast hlutfallslega á milli frambjóðenda eftir atkvæðafjölda í forkosningunum. Til þessa hefur Obama fengið samtals 1745,5 kjörmenn  en Clinton 1608 kjörmenn en 2025 þarf til að trygga útnefningu sem forsetaefni á flokksþingi demókrata í sumar. Eftir á að kjósa í nokkrum ríkjum þar sem tæplega 300 kjörmenn eru samtals til skiptanna; næstu kosningar verða í Virginíu eftir viku. Því virðist ljóst, að um 800 forustumenn flokksins, sem hafa seturétt á flokksþinginu án þess að vera sérstaklega kjörnir úr röðum tiltekinna frambjóðenda, muni ráða úrslitum um hvort Obama eða Clinton verður forsetaefni flokksins.

En enn er óútkljáð deila um það, hvort 368 fulltrúar frá Flórída og Michigan fái að sitja flokksþingið. Þar fóru fram forkosningar og Clinton vann öruggan sigur í báðum ríkjunumn. En vegna þess að ríkin fóru ekki eftir reglum Demókrataflokksins um dagsetningar var tilkynnt að kjörmennirnir fái ekki seturétt á flokksþinginu. Þessu vill Clinton breyta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert