Sarkozy hættur stuðningi við Blair í embætti forseta ESB

Tony Blair.
Tony Blair. Reuters

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti styður ekki lengur Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, í embætti forseta Evrópusambandsins. Mun Sarkozy telja að andstaða innan ESB við að Blair verði fyrsti forseti sambandsins sé mikil vegna þess að Blair var fylgjandi herförinni til Íraks.

Frá þessu greinir fréttavefur BBC, og segir að Sarkozy muni hafa skipt um skoðun eftir fund með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.

Hið nýja embætti forseta ESB var búið til í samkomulagi um endurbætur á bandalaginu. Munu leiðtogar aðildarlandanna kjósa forsetann.

Heimildamenn í Frakklandi segja að Sarkozy hafi ennfremur komist að þeirri niðurstöður að Blair væri ekki rétti maðurinn í forsetaembættið vegna þess að Bretar hafa ekki tekið upp evruna, og ekki gerst aðilar að Schengen-samkomulaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert