Stjórnvöld í Búrma segja nú að yfir 15 þúsund manns hafi látið lífið þegar fellibylur fór yfir landið um helgina. Þar af létust 10 þúsund manns í bænum Bogalay, sem stendur við ósa árinnar Irrawaddy en þar gekk óveðrið á land á föstudag.
Nyan Win, utanríkisráðherra Búrma, sagði í gær að áætlað væri að 10 þúsund manns að minnsta kosti hefðu látið lífið. Mikið tjón var einnig á helsta hrísgrjónaræktarsvæðinu í Búrma þar sem um 24 milljónir manna búa eða um helmingur þjóðarinnar.
Ástandið í Búrma hefur leitt til þess að herforingjastjórnin í Búrma, sem að jafnaði hefur lítil samskipti við umheiminn, hefur beðið þjóðir heims um aðstoð.
Laura Bush, forsetafrú Bandaríkjanna, sakaði stjórnvöld um að hafa ekki varað íbúa Búrma við yfirvofandi óveðri og sagði að ríkisfjölmiðlar hefðu ekki gefið út viðvaranir.