Alfred Gusenbauer, kanslari Austurríkis, kynnti í dag hertari aðgerðir yfirvalda til að berjast gegn kynferðisglæpum. Eftir að upp komst um glæpi Josef Fritzl hefur þess verið krafist að refsingar á kynferðisglæpamönnum verði þyngdar.
Gusenbauer tilkynnti í dag að sakaskýrslur sakfelldra kynferðisglæpamanna verði geymdar mun lengur en nú er gert. Einnig að menn sem sakfelldir hafa verið fyrir kynferðisglæpi megi ekki sinna ákveðnum störfum eða ættleiða börn.
Josef Fritzl hélt dóttur sinni fanginni í 24 ár og eignaðist með henni sjö börn. Hann var sakfelldur fyrir kynferðisglæpi á sjöunda áratug síðustu aldar en brot hans höfðu verið afmáð úr skýrslu hans. Síðar ættleiddi hann eitt af börnunum sem hann eignaðist með dóttur sinni og tók tvö þeirra í fóstur.