Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, áætlar að samtökin þurfi rúmar 8 milljónir Bandaríkjadollara til að mæta brýnustu þörfum barna og kvenna á hamfarasvæðunum í Búrma. Þessi upphæð verður síðar aðlöguð að nákvæmara ástandsmati og greiningu. UNICEF mun einnig taka þátt í sameiginlegu ákalli stofnana SÞ eftir fjármagni.
Fram kemur í fréttatilkynningu frá samtökunum að Landsskrifstofa UNICEF í Búrma hafi þegar veitt 500.000 dollurum úr reglubundinni fjárhagsáætlun sinni til neyðarstarfsins. Megnið af þeim fjármunum hafi þegar verið nýttir í fyrstu viðbrögð við ástandinu.
Samkvæmt fyrsta ástandsmati UNICEF og samstarfsaðila á Yangon og Irawaddy-svæðunum er mikil þörf á grunnnauðsynjavöru, efni í skýli, teppum, drykkjarvatni, flugnanetum og lyfjum auk þess sem mikilvægt er að koma upp salernisaðstöðu.
UNICEF á Íslandi hefur hafið söfnun vegna hjálparstarfs UNICEF í Búrma. Hægt er að leggja söfnuninni lið í gegnum heimasíðuna www.unicef.is og með því að hringja í sérstök söfnunarnúmer: 904-1000 (1.000 krónur), 904-3000 (3.000 krónur) og 904-5000 (5.000 krónur).