Elisabeth Fritzl sem haldið var í dýflissu í kynlífsánauð í 24 ár mun hafa ætlað að flytja að heiman skömmu áður en faðir hennar læsti hana inni. Þetta kemur fram í bréfum sem hún ritaði í maí 1984 nokkrum mánuðum áður en Josef faðir hennar læsti hana inni í gluggalausum kjallaranum.
„Eftir prófin... mun ég flytja til systur minnar og kærasta hennar," skrifaði hún vini sínum 1984 en það bréf ásamt tveimur öðrum var birt í dagblaðinu Östereich í morgun.
„Þegar þú lest þetta verður það um garð gengið. Ég mun senda þér nýja heimilisfangið mitt þegar ég hef flutt," segir hún í öðru bréfi frá 29 maí.
Í þriðja bréfinu frá 3 ágúst 1984 skrifar hún vini en segir ekkert um flutninga, ræðir bara tómstundagaman og fyllerí sem hún fór á.
Í ummælum sem lögfræðingur Josefs miðlaði til fjölmiðla segir Josef: „Hún hlýddi engum reglum. Hún hékk á skuggalegum börum öll kvöld og drakk og reykti. Þess vegna varð ég að útvega, búa til stað þar sem ég gæti haldið Elisabeth frá umheiminum, með valdi ef nauðsyn bæri til."