Anders Ladekarl, framkvæmdastjóri Rauða krossins í Danmörku, segir aðstæður til hjálparstarfs í Búrma, fyrir neðan allar hellur og afstöðu yfirvalda skelfilega. „Þetta er sennilega það villimannslegasta sem við höfum upplifað til þessa,” segir hann en samtökin hafa enn hefur ekki fengið heimild til að flytja hjálpargögn til landsins. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
„Birgðir í landinu eru að ganga til þurrðar og það er spurning upp á líf og dauða að koma birgðum þangað. Það er fáránlegt að skriffinnska skuli standa í vegi fyrir því að við getur aðstoðað fólk sem orðið hefur fyrir barðinu á slíkum hamförum," segir hann. „Ég er mjög fylgjandi því að fara diplómatískar leiðir en hér skila þær hreinlega ekki nægilega skjótum árangri. Við höfum fengið tilkynningar um að lík liggi á víðavangi á ákveðnum stöðum og spilli drykkjarvatni enn frekar er en orðið er. Við heyrum að slagsmálum við þær búðir sem hafa verið opnaðar. Það er þörf fyrir líkpoka, grímur, hanska og að sjálfsögðu mat, drykk og húsaskjól”
Herforingjastjórnin í Búrma hefur verið harðlega gagnrýnd á undanförnum dögum vegna meints sinnuleysis og seinagangs í kjölfar hamfaranna í landinu á laugardag. Erlendir stjórnmálamenn hafa þó lagt áherslu á það í opinberri umræðu um málið að miklar framfarir hafi orðið varðandi samvinnu við yfirvöld í landinu frá því á mánudag er ljóst varð hversu mikil neyðin í landinu er.