Ísraelsríki sextíu ára

Ungmenni fagna sextíu ára afmæli Ísraelsríkis á Rabin torgi í …
Ungmenni fagna sextíu ára afmæli Ísraelsríkis á Rabin torgi í Tel Aviv í Ísrael í gærkvöldi AP

Ísraelar halda upp á það í dag að sextíu ár eru frá stofnun Ísraelsríkis. Ehud Olmert, forsætisráðherra landsins, sagði í ávarpi sem hann flutti í tilefni dagsins að hann telji varanlegan frið á milli Ísraela og Palestínumanna innan seilingar. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

„Það er ekkert sem við þráum meira en að binda enda á átökin við nágranna okkar og það er ekkert í heiminum sem kæmi sér betur fyrir báða aðila en að binda enda á átökin,” sagði hann. „Það er ekki til sú deila sem ekki má finna lausn á, þrátt fyrir erfiðleika og bakslög. Það er grundvallaratriði að leysa málin og ég get staðhæft af sannfæringu að við erum ekki langt frá því marki.”

Þá sagði hann leiðtoga finnast meðal nágranna Ísraela sem skilji þetta en að öxull haturs, hryðjuverka og ögrana, sem sé áhrifamikill á svæðinu geri allt sem í hans valdi stendur til að ýta undir hatur og ofbeldi.

Olmert sagði einnig að hefðu arabar tekið í útrétta sáttahönd Ísraela árið 1948 hefði það hlíft öllum íbúum svæðisins við miklum þjáningum og afstýrt því gífurlega mannfalli sem þar hafi orðið á síðustu sextíu árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert