Arabíska sjónvarpsstöðin al-Arabiya greinir frá því að leiðtogi Al-Qaeda í Írak, Abu Ayyub al-Masri, hafi verið handtekinn, og er vitnað í varnarmálaráðuneyti Íraks. Masri var handtekinn í sameiginlegum aðgerðum Íraka og Bandaríkjamanna í borginni Mosul í norður-Írak.
Á fréttavef BBC kemur fram að Bandaríkjaher hafi ekki staðfest handtökuna. Talið er að Masri hafi átt þátt í því að móta fyrstu deild al-Qaeda samtakanna í Írak. Masri, sem er fæddur í Egyptalandi, tók við sem leiðtogi öfgasinnaðra súnníta af Abu Musab al-Zarqawi, sem féll í loftárás Bandaríkjahers í júní árið 2006.