Herforingjastjórnin í Búrma sætir gagnrýni alþjóðasamfélagsins vegna
tregðu hennar til að þiggja neyðaraðstoð erlendis frá. Sameinuðu
Þjóðirnar segja að flugvélar þeirra hlaðnar matvælum fái ekki
lendingarleyfi og bandarískur diplómat segir að ástandið sé hræðilegt
og að tala látinna gæti farið yfir 100 þúsund eftir því sem aðstæður
versni.
Samkvæmt fréttavef BBC hefur Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna sagt að þetta snúist ekki um stjórnmál heldur neyðarástand íbúanna.
Milljón manns eru nú heimilislaus og án skjóls og stór landsvæði fóru undir vatn og óttast menn mjög faraldur af einhverri gerð.
Hjálparstarfsmenn segja að margt fólk á svæðinu hafi ekki fengið neina aðstoð. Sérfræðingar telja að það þurfi að hrinda af stað miklu hjálparstarfi til að hindra enn frekari dauðsföll.