Ætla má að um 3,6 milljónir tonna af óskemmdum matvælum fari á haugana á ári hverju í Englandi og Wales, samkvæmt niðurstöðum nýrrar athugunar. Mest er það grænmeti, ávextir og brauð sem hent er, en 60% matvælanna sem fara á haugana eru ósnert.
Frá þessu greinir fréttavefur BBC. Rannsóknin var unnin á vegum WRAP, verkefnis sem kostað er af yfirvöldum í Englandi, Skotlandi, Wales og á Norður-Írlandi. Athugað var sorp frá 2.138 heimilum.
Joan Ruddock umhverfisráðherra sagði að niðurstöðurnar væru „yfirþyrmandi“ í ljósi matvælakreppunnar í heiminum. Neytendur greiði fyrir mat sem þeir hendi, þá þurfi einnig að greiða fyrir urðun, og í þriðja lagi verði umhverfisáhrif af framleiðslu, innpökkun, flutningi og kælingu á matvælum sem fari síðan beint á haugana.