„Afleiðingarnar komu öllum í opna skjöldu"

Mikil ásókn í fenjavið, náttúrulega vörn gegn flóðum, er talin ein orsaka þess hvernig fór þegar flæddi yfir láglend og þéttbýl svæði í Búrma í kjölfar fellibyljarins Nargis sem reið yfir landið á föstudag. Þetta segir Sólveig Ólafsdóttir, sviðsstjóri útbreiðslusviðs hjá Rauða krossi Íslands, sem segir einnig uppi kenningar um að breytingar á veðurfari kunni að eiga þátt í því að fellibylir skella yfir svæði þar sem þeirra varð ekki vart áður, svo sem í Brasilíu og Kanada.

Aðspurð hvort hamfarirnar í Búrma væru á meðal þeirra mannskæðustu á síðari árum sagði Sólveig svo vera ef rétt væri að fjöldi fórnarlamba færi hátt í 100.000 eða þar yfir. Um 225.000 manns hefðu týnt lífi þegar mikil flóðbylgja reið yfir S-Asíu á öðrum degi jóla 2004 og um 70.000 manns þegar jarðskjálfti skók Pakistan 2005.

Til að setja hamfarirnar nú í samhengi segir á vefsíðu Alþjóða Rauða krossins að á tímabilinu 1982-1991 hafi milljón manna beðið bana í hamförum í heiminum, samanborið við 620.000 manns á árunum 1992-2001. Sólveig segir bættar forvarnir hafa nýst vel við að lágmarka mannfall af völdum hamfara og bendir á að mun færri hafi farist í flóðum í Mósambík í fyrra en árið 2000 þegar mikið mannfall varð í flóðum í landinu.

Innt eftir því hvort koma hefði mátt í veg fyrir harmleikinn í Búrma með slíkum forvörnum segir Sólveig nauðsynlegt að hafa í huga að þótt vitað væri að fellibylur stefndi á landið hefðu afleiðingar hans komið öllum í opna skjöldu. Nargis sé eini fellibylurinn sem ríður yfir landið síðan árið 1927. Mannskæðustu hamfarirnar á sögulegum tímum eru taldar hafa verið þegar Gulá flæddi yfir bakka sína í Kína árið 1931, með þeim afleiðingum að allt að 2,5-3,7 milljónir manna eru taldar hafa beðið bana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert