Búrma vill matar- og neyðarbirgðir en ekki erlenda hjálparstarfsmenn segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneyti landsins. „Búrma er að leggja gríðarlega áherslu á að koma hjálpargögnum á svæðin þar sem neyðin er mest og er ekki reiðubúin að taka við erlendum teymum," segir í tilkynningunni.
Samkvæmt fréttavef BBC birtist tilkynningin í ríkisreknu dagblaði í Búrma. Embættismenn á vegum Sameinuðu Þjóðanna eru að sögn BBC að missa þolinmæðina vegna þess að yfirvöld í Búrma þverskallast við að þiggja alþjóðlega aðstoð.
Sum hjálpargögn hafa komist inn í landið en samkvæmt sérfræðingum er það langt frá því að vera nægjanlegt.