Líbanon rambar nú á barmi borgarastyrjaldar og hafa vígasveitir Hezbollah náð mörgum hverfum Beirút á sitt vald en skotbardagar hafa geisað í borginni undan farna þrjá daga.
Skothríð og sprengingar eru áberandi í vesturhluta borgarinnar að sögn fréttaskýrenda AFP fréttastofunnar sem telja landið vera að ýtast út á ystu nöf borgarastyrjaldar.
Í Beirút berjast herskáir Súnnítar sem eru hliðhollir ríkisstjórninni sem studd er af vesturveldum við stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar.
Hezbollah hefur lokað sjónvarpsstöðinni Future News sem er hlynnt vestrænum löndum og 10 manns hið minnsta, flestir óbreyttir borgarar hafa látið lífið víða um borgina.
Samkvæmt fréttavef BBC blossuðu skærurnar upp er ríkisstjórnin lokaði fyrir samskiptanet Hezbollah, símkerfi og netþjónustu.
Leiðtogi samtakanna, Hassan Nasrallah sagði að þær aðgerðir væru stríðsyfirlýsing og hét því að hefna sín á þeim sem bæri ábyrgðina.
Öll umferð flugvéla hefur legið niðri um alþjóðlega flugvöllinn í Beirút undanfarna þrjá daga og engar ferðir eru áætlaðar í dag. Hezbollah lokaði flugvellinum með því að ýta upp sandhrúgum á flugbrautum og kveikja í dekkjahrúgum.
Samkvæmt AP fréttastofunni hefur stjórnarherinn haldið sig til hlés í þessum skærum af ótta við að dragast inn í deilurnar og liðast í sundur í trúflokkadeilum.
Bandaríkin hafa sent harðorða viðvörun þar sem Hezbollah er beðið að láta af niðurrifsstarfsemi sinni og meðlimir í öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna hefur lýst yfir þungum áhyggjum vegna ástandsins.