SÞ stöðva flutning hjálpargagna til Búrma

Sameinuðu þjóðirnar munu ekki senda frekari hjálpargögn til Búrma eftir að herforingjastjórnin í landinu gerði öll hjálpargögn sem send hafa verið til landsins upptæk. Þetta kemur fram á vef bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal.

Talsmaður matvælaaðstoðar SÞ, Paul Risley, segir að Sameinuðu þjóðirnar eigi ekki annarra úrkosta völ þar til niðurstaða næst í málinu.

Talið er að allt að ein og hálf milljón manna sé á vergangi eftir að fellibylurinn Nargis gekk yfir Búrma um helgina. Óttast er að um 100 þúsund hafi látist í fellibylnum og afleiðingum hans.

Vatnsból eru víða menguð og hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin staðfest að kólera hafi breiðst út á svæðunum sem urðu verst úti í fárviðrinu. Sérfræðingar telja að greiði þurfi fyrir flugi hundraða flutningaflugvéla til að anna þörfinni fyrir birgðir, en aðeins nokkrar flugvélar fengu slíkt leyfi í gær.

 Utanríkisráðherra Frakklands, Bernard Kouchner, segir að frönsk herskip séu á leið til Búrma með 1.500 tonn af hjálpargögnum og er búist við að skipið verði komið til landsins á fimmtudag. „Vandamálið er hins vegar hvert aðstoðin verður send og hvernig henni verður dreift," segir Kouchner. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka