Svo virðist sem líkurnar á að Hillary Clinton hljóti útnefningu Demókrataflokksins séu nánast engar þar sem keppinautur hennar, Barack Obama nýtur meira fylgis meðal ofurfulltrúanna svonefndu í fyrsta skipti. Samkvæmt könnun AP fréttastofunnar styðja 275 af þeim sem gert hafa upp hug sinn Obama en 271 Clinton. Alls eru ofurfulltrúarnir 796 talsins en þeir eru frammámenn sem hafa atkvæðisrétt á flokksþingi vegna stöðu sinnar.
Obama vantar nú aðeins 183 fulltrúa til að tryggja sér útnefninguna án atkvæðagreiðslu á flokksþinginu í ágúst en til þess þarf 2025. Eru nú aðeins eftir forkosningar í sex ríkjum.
Forkosningarnar, sem eftir eru, verða í Vestur-Virginíu, Kentucky, Oregon, Montana og Suður-Dakóta og að síðustu á Puerto Rico. Eru fulltrúar þessara ríkja samtals 217.