Hjálpargögn frá UNICEF berast til Búrma

Hjálpargögn frá UNICEF hafa borist til Búrma og lentu flugvélar í Rangoon, höfuðborg landsins í gær með þrjár milljónir vatnshreinsitaflna.  Í tilkynningu frá UNICEF segir að áætlað sé að fljúga með lyf, sjúkragögn og matvæli fyrir vannærð börn á næstu þremur dögum. Nýjar myndir voru að berast frá hamfarasvæðunum sem sýna glöggt það neyðarástand sem skapast hefur af völdum fellibylsins fyrir rúmri viku síðan. Talið er að um 1,5 milljónir manna þurfi á brýnni neyðaraðstoð að halda í Búrma.
 
„Neyðin sem íbúar Búrma standa frammi fyrir er svo mikil að segja má að hver sekúnda skipti máli í lífi barns í landinu,“ sagði yfirmaður UNICEF í Búrma, Juanita Vasquez, og hvatti um leið þjóðir heims til að leggja sitt af mörkum til að veita nauðstöddum hjálp.
 
Eitt af því mikilvægasta í hjálparstarfinu núna er að sjá til þess að fólk hafi aðgang að hreinu vatni. Vatnshreinsitöflurnar sem komu til landsins í gær geta hreinsað allt að fimm milljónir lítra af menguðu vatni, en það mætir vatnsþörf 200 þúsund manna í heila viku. Þar sem margir vegir eru enn illfærir sökum leðju og fallinna trjáa, er auðveldara og hagkvæmara að dreifa vatnshreinsitöflum en að gera tilraun til að dreifa vatni í tönkum og brúsum.
 
UNICEF óttast að mengað vatn muni hafa alvarlegar afleiðingar á heilsu barna sem nú þegar búa við mjög erfiðar aðstæður. Heftur aðgangur að hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu, bágborin skýli og ónóg næring skapar enn meiri hættu fyrir börn sem voru þegar mjög berskjölduð fyrir sjúkdómum og hungri.
 
Samkvæmt heilbrigðissérfræðingum UNICEF í Búrma eru 20% barna á hamfarasvæðunum með niðurgang og tilfelli malaríu hafa einnig komið upp. Til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og sjúkdóma sem rekja má til óhreins vatns, hefur UNICEF dreift 15 þúsund hreinlætispökkum og skipulagt dreifingu 20 þúsund pakka til viðbótar, sem og dreift saltupplausnum til barna með niðurgang. Auk þess mun UNICEF koma upp salernisaðstöðu í búðum sem settar hafa verið upp fyrir fólk sem misst hafa heimili sín. 
 
Landsnefnd UNICEF á Íslandi hefur hafið söfnun vegna hjálparstarfs UNICEF í Búrma. Fólk getur lagt söfnuninni lið í gegnum heimasíðu okkar á www.unicef.is/mjanmar. Auk þess er hægt að hringja í söfnunarnúmer. Hægt er að velja um að láta gjaldfæra þrjár upphæðir á símareikninginn sinn; 1000 krónur, með því að hringja í síma 904-1000; 3.000 krónur, með því að hringja í 904-3000; og 5.000 krónur, með því að hringja í 904-5000.

UNICEF
UNICEF
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert