Kosið í skugga hörmunga

Íbúar Búrma greiða í dag atkvæði um nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Segir herforingjastjórnin að atkvæðagreiðslan sé liður í að undirbúa þingkosningar í landinu sem halda á árið 2010 en stjórnarandstæðingar segja þjóðaratkvæðagreiðsluna ekkert annað en liður í að auka vald herforingjastjórnarinnar. Talið er að 1,5 milljón manna hafi misst heimili sín í fellibylnum sem reið yfir landið fyrir viku síðan og að um 100 þúsund manns hafi látist.

En þar sem átján ár eru liðin frá því að íbúar Búrma fengu síðast að ganga að kjörborðinu þá veit hluti þjóðarinnar ekki hvernig greiða á atkvæði enda margt annað ofar í huga fólks þessa stundina.

Fjölmargar þjóðir hafa lýst sig reiðubúnar til aðstoðar á Búrma og þrýstingur alþjóðasamfélagsins á stjórnvöld um að landið verði opnað vex dag frá degi. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lýsti í gær yfir stuðningi við tillögu Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, sem vill að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna þvingi stjórnvöld í Búrma með einhverjum leiðum til að opna landið fyrir alþjóðlegu hjálparstarfi. „Ég styð tillögu Frakka um að öryggisráðið taki hættuástandið í Búrma til skoðunar. Það væri óábyrgt ef öryggisráðið kæmi ekki að málinu,“ sagði m.a. í yfirlýsingu frá Merkel.

Herforingjastjórnin segir að ef meirihlutinn samþykkir nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslunni þá verði haldnar almennar þingkosningar í landinu árið 2010. Því sé þjóðaratkvæðagreiðslan liður í að koma á lýðræði í landinu. Samkvæmt stjórnarskránni verður tryggt að 25% þingsæta fari til hersins og ef neyðarástandi er lýst yfir þá sé forseta heimilt að færa allt vald til hersins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert