Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Zimbabwe, ætlar að taka þátt í annarri umferð forsetakosninganna í landinu. Morgan Tsvangirai, sem er staddur í Suður-Afríku, sagði þetta við fréttamenn í morgun. Segir hann að honum fyndist hann svíkja þjóð sína taki hann ekki þátt í kosningnum þar sem kosið verður milli hans og Roberts Mugabe, sitjandi forseta landsins.
Tsvangirai hefur áður sagt að hann hafi farið með sigur af hólmi í forsetakosningunum sem haldnar voru í Zimbabwe þann 29. mars sl. og óþarft sé að kjósa aftur þar sem hann sé réttkjörinn forseti landsins. Samkvæmt opinberum tölum fékk hann flest atkvæði í kosningunum en ekki meirihluta og því þurfi að kjós á ný. Tsvangirai dregur opinberu tölurnar í efa og segir stuðningsmenn Mugabe hafa haft rangt við þegar atkvæði voru talin.