Lögregla í Katmandu, höfuðborg Nepals, handtók 560 tíbetskar konur, þar á meðal fjölda búddískra nunna, sem stóðu fyrir mótmælum gegn aðgerðum kínverskra stjórnvalda í Tíbet. Nær daglegar mótmælaaðgerðir hafa verið í Katmandu frá því í mars en mótmælin í dag voru ein af þeim fjölmennustu.
Mótmælendur, sem báru svarta borða utan um upphandlegg, og hrópuðu „Frelsið Tíbet" voru dregnir inn í lögreglubíla og fluttir burt. Að sögn lögreglu í Katmandu voru konurnar settar í varðhald víðsvegar um borgina og verður þeim sleppt síðar í dag.
Óeirðir brutust út í mars í Lhasa, höfuðborg Tíbets, og dreifðust til fleiri staða, nokkrum dögum eftir að friðsæl mótmæli hófust gegn kínverskri stjórn í Tíbet. Meira en tuttugu þúsund Tíbetar hafa búið í Katmandu eftir að þeir flúðu heimaland sitt í kjölfar misheppnaðar uppreisnar gegn kínverskum stjórnvöldum árið 1959. Stjórnvöld í Nepal segjast ekki geta leyft mótmæli Tíbeta því þeir líti á landið sem óaðskiljanlegan hluta af Kína.