Kosningabandalag Lýðræðisfylkingarinnar, flokks Borisar Tadic's forseta Serbíu, virðist hafa unnið þingkosningarnar sem fram fóru í landinu í dag. Þegar um 50% atkvæða hafa verið talin er bandalag undir forsæti Tadics með um 38% atkvæða en Róttæki flokkurinn með 28%. Þjóðernishreyfing Vojislav Kostunica, forsætisráðherra, er með um 11% atkvæða. Ef þetta verða úrslitin er talið líklegt að Serbía muni auka tengslin við vesturlönd en Tadic er hallur undir vestræna samvinnu á meðan róttækir þjóðernissinnar vilja auka tengslin við Rússland.
En síðan á eftir að koma í ljós hvaða flokkar mynda bandalag að lokinni talningu atkvæða. Til að mynda er Sósíalistaflokkurinn nú með um 8% atkvæða og gæti því komist í lykilaðstöðu við stjórnarmyndun.
Kjörsókn var um 60% sem er heldur minna en í forsetakosningunum sem fram fóru fyrr á árinu en þykir ágætis kjörsókn í þingkosningum í Serbíu. Þetta eru fyrstu kosningarnar í landinu síðan Kosovo lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu.