Stuðningsmenn inngöngu Serbíu í Evrópusambandið fögnuðu sigri í þingkosningum í landinu í dag. Bandalag lýðræðisfylkingarinnar og miðjuflokka með forseta Serbíu í fararbroddi, Boris Tadic, fengu um 39% atkvæða. Þrátt fyrir þetta hvetur leiðtogi róttækra þjóðernissinna, Tomislav Nikolic, til þess að mynduð verði stjórn flokka sem berjast gegn því að horft verði til Evrópusambandsins um inngöngu. Þjóðernissinnar fengu um 29% fylgi í kosningunum. Evrópusambandið fagnar úrslitnum í Serbíu og segir þetta sigur Evrópusambandsins og sameiningar í Evrópu.
Nikolic segist vilja hefja viðræður um stjórnarsamstarf við Vojislav Kostunica, forsætisráðherra og leiðtoga hófsamra þjóðernissinna, og Sósíalistaflokkinn sem fékk meira fylgi en spáð var en Slobodan Milosevic var áður leiðtogi flokksins. Fékk flokkurinn rúmlega 8% atkvæða og hefur ekki verið jafn sterkur síðan Milosevic fór frá völdum.
Tadic andmælir þessum hugmyndum og segir að hann muni aldrei leyfa þjóðernissinnum að endurheimta völd í landinu. Hann muni því tilnefna forsætisráðherra úr röðum bandalags lýðræðisfylkingarinnar og miðjuflokkana.
„Þetta er stórkostlegur dagur fyrir Serbíu“, sagði Tadic eftir að tölur voru birtar í kvöld. „Íbúar Serbíu hafa staðfest slóð Serbíu inn í Evrópu. Serbía mun ganga í Evrópusambandið. Við höfum lofað því og munum standa við það,” sagði Tadic.
En Tadic sagðist ekki fagna þar sem andstæðingar hans úr hópi þjóðernissinna ætli að reyna að fylkja sér saman gegn bandalagi hans fyrir Serbíu sem hluta af Evrópu og reyna að mynda næstu stjórn.
Tadic, sem hefur áður lýst því yfir að hann væri andsnúinn sjálfstæði Kosovo, ítrekaði það í kvöld með stuðningsmönnum sínum að hann myndi aldrei viðurkenna sjálfstæði Kosovo.
Lokatölur eru ekki væntanlegar fyrr en á morgun en talið er að þær verði svipaðar og þær sem birtar voru í kvöld.