Talið er að þrjú til fimm þúsund manns hafi látist í einni sýslu í Sichuan-héraði í Kína í jarðskjálfta sem reið yfir landið í morgun. Skjálftinn, sem mældist 7,8 stig á Richter, átti upptök sín skammt frá höfuðborg héraðsins Chengdu klukkan 14:28 að staðartíma.
Samkvæmt Xinhua ríkisfréttastofunni er talið að 10 þúsund manns hafi slasast í sýslunni í skjálftanum.
Kínverskir ríkisfjölmiðlar segja, að svonefnd Þriggja gljúfra stífla í Yangtze fljótinu hafi skemmst í skjálftanum. Stíflan er hluti af stærstu vatnsaflsvirkjun heims.