Fimm létust í jarðskjálftanum sem reið yfir Kína í morgun, samkvæmt frétt kínversku ríkisfréttastofunnar. Jarðskjálftinn sem mældist 7,8 á Richter átti upptök sín norðurvestur af Chengdu, höfuðborg Sichuan héraðs, í vesturhluta landsins. Eyðilögðust byggingar og vegir í skjálftanum og yfir 100 slösuðust en ekki liggur fyrir hve margir, samkvæmt upplýsingum frá héraðsstjórninni. Tveir grunnskólar hrundu í skjálftanum og voru það meðal annars nemendur í skólunum sem létust.
Jarðskjálftinn fannst víða í nágrannalöndunum, í Taílandi, Víetnam og Pakistan. Í Peking, höfuðborg Kína, sem er í um 1.500 km fjarlægð frá upptökum skjálftans, hristust byggingar til og frá.
Að sögn Jóns Trausta Sæmundssonar, sem staddur er í Peking, fannst skjálftinn vel þar þar sem skjálftabylgjan mældist 3,9 á Richter 7 mínútum eftir að skjálftinn reið yfir eða kl. 2:35 á staðartíma.
„Byggingin sem ég var í sveigðist fram og til baka og fólk þusti út á götu um leið og byggingin hætti að vagga. Þetta var mjög óþægileg tilfinning sem líkja má við blöndu af svima og ógleði. Stór hópur fólks safnaðist saman fyrir utan byggingar í borginni þar til tilkynnt var að óhætt væri að snúa aftur til vinnu," segir Jón Trausti.
Tveir eftirskjálftar riðu yfir skömmu eftir stóra skjálftann og mældust þeir 6 og 5,4 stig á Richter.
Stjórnvöld á Kína hafa ákveðið að senda herinn á skjálftasvæðið til þess að aðstoða við hreinsunarstarf. Forseti Kína, Hu Jintao, segir að allt verði gert til þess að bjarga fórnarlömbum skjálftans en talið er að mun fleiri hafi látist og slasast heldur en fyrstu tölur benda til, samkvæmt alþjóðlegum fréttastofum.