Irena Sendler, sem bjargaði lífi 2500 barna af gyðingaættum í síðari heimstyrjöldinni, er látin 98 ára að aldri. Sendler smyglaði börnunum úr gyðingahverfinu í Varsjá í Póllandi á meðan hernám nasista stóð yfir. Sendler var ekki sjálf af gyðingaættum en starfaði sem félagsráðgjafi fyrir stríðið og sá um fátækar gyðingafjölskyldur í Varsjá. Eftir innrás Þjóðverja í Póllandi árið 1939 settu nasistar upp gyðingahverfi víðsvegar um landið til þess að einangra gyðinga. Gyðingahverfið í Varsjá var girt af árið 1941.
Sendler setti sig í dulargervi hreinlætisstarfsmanns, sem nasistar hleyptu með takmörkuðum hætti inn í hverfið, og smyglaði mat, fötum og lyfjum til gyðinga. Árið 1942 hóf hún að smygla börnum úr hverfinu í samvinnu við Zegota hreyfinguna, sem var stofnuð af pólskri andspyrnu til þess að hjálpa gyðingum.
Börnunum var smyglað m.a með slökkviliðsmönnum, ruslabílum, í ferðatöskum, eða falin undir kápum fólks sem fékk að fara inn í hverfið. Sendler skrifaði svo niður nöfn og upplýsingar allra barnanna og geymdi þær. Börnunum var komið fyrir í klaustrum eða hjá pólsk-kaþólskum fjölskyldum.