Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels hefur beðið Omar Suleiman, yfirmann leyniþjónustu Egyptalands, um að koma þeim skilaboðum áleiðis til herskárra uppreisnarmanna á Gasa, að skilyrði Ísraela fyrir vopnahléi séu m.a að ísraelskum hermanni sem haldið er í gíslingu verði sleppt.
Olmert bað Suleiman einnig um að segja palestínskum vopnasveitum að hætta smygli vopna inn á Gasa svæðið ef Ísraelar eiga að samþykkja tillögur Egypta um vopnahlé.
Suleiman var staddur í Ísrael til þess að fá stuðning stjórnvalda á vopnahléstillögu, sem palestínsk stjórnvöld hafa þegar samþykkt.
Herskáir uppreisnarmenn handsömuðu ísraelska hermanninn, Gilad Shalit í landamæraáhlaupi árið 2006, og krefjast ísraelsk stjórnvöld þess að hann verði frelsaður úr gíslingu.